Mar 12, 2012

njótum meðan við getum!


Allt það sem við höfum farið yfir hingað til hefur verið í tengslum við framtíðina eða fortíðina. Það sem skiptir samt mestu máli er „Núið“. Það sem þú gerir núna getur þú alfarið ráðið. Það sem gerist í framtíðinni getur þú bara haft áhrif á með því hvernig þú kemur að hlutunum akkurat þessa stundina. Til eru endalaust af fólki sem talar endalaust um að gera hitt og þetta en koma engu í verk. Við þekkjum öll þannig fólk. Oft heyrir maður þetta fólk segja „djöfull ætla ég að taka á því á morgun“, „ég byrja á fullu á morgun“ eða eitthvað álíka, af hverju að bíða til morguns?


Allt sem við gerum í lífinu er endurtekning. Hvað sem það er, því oftar sem þú gerir það því betri verður þú í því. Þetta á við um allt. Íþróttir eru þar engin undantekning. Á bakvið hvern einasta afreksmann í Íþróttum liggja hundruðir klukkutíma af æfingum á háu tempói.


Þeir sem fresta hlutunum eru á sama báti. Þeir verða með tímanum mjög góðir í því að fresta hlutum og finna ástæður fyrir að þurfa ekki að gera hina og þessa hluti. Þeir verða því betri að finna sannfærandi ástæður og ná alltaf að réttlæta fyrir sjálfum sér og öðrum að það sé ekki þess virði að æfa sig meira, að það sé ekki hægt að vera betri, til hvers, liðið kaupir hvort er bara útlendinga, það er hvort er ekki til neinar minútur fyrir mig og svo framvegis.


Auðvitað er nauðsynlegt að hafa markmið og stefna eitthvert. En til hvers eru þessi markmið og stefnur ef þú nýtur þess ekki að stunda það sem þú ert að gera núna? Hvers virði verður þetta markmið þitt þá í raun og veru?

Íþróttaferill er eitthvað sem varir ekki að eilífu, njótum hans meðan við getum.