Mar 24, 2012

Allstaðar er fólk sem hjálpar



Við Íslendingar höfum eitthvað svakalega mikið í okkur sem gerir það að verkum að við viljum ekki spyrja aðra um hjálp eða spyrja um ráð til þeirra sem vita betur. Ég sjálfur hef brennt mig mikið á þessu. Hefði ég spurst meira fyrir áður en ég fór seinna skiptið til Spánar til dæmis hefði ég ekki farið þangað og þar af leiðandi ekki verið látinn fara. 

En það sem við áttum okkur ekki á er að það er enginn skömm í að biðja um hjálp eða leita til þeirra sem vita betur. Þetta uppgötvaði ég þegar ég kom heim frá spáni. Ég ákvað að finna alla þá sérfræðinga sem ég vissi um og soga í mig upplýsingar frá þeim eins og svampur. Þetta reyndist mér svakalega vel, ég fór að taka svakalegum framförum bara vegna þess að ég tók mér tíma til að hlusta á það sem þeir í kringum mig höfðu að segja. 

Þetta er allt fólk sem ég hef leitað til og öll hjálpað mér á sinn hátt. Ert þú að nota allar leiðir til þess að ná þínum markmiðum?


Íslenskur körfubolti eða Íslenskt íþróttarlíf yfirhöfuð er það lítið samfélag að það kannast flestir við alla. Það sem kemur samt meira á óvart er að flestir eru tilbúnir að hjálpa næsta manni til að komast lengra. Ég get nánast lofað því að ef þú spyrð eitthvern sem þú telur vita meira en þú, mun hann svara þér með glöðu geði. Maður hugsar oft að þessi sem maður spyr vilji nú ekkert gera með að hjálpa manni, hann hafi nóg á sinni könnu en raunin er sú að flestir ef ekki allir meta það ef annar íþróttarmaður kemur til þeirra og spyr um eitthvað. Það er líka viðurkenning fyrir íþróttarmanninn/þjálfarann sem er spurður, hann hlýtur þá að vera að gera eitthvað rétt.
Ég hef farið út um víðan völl að spyrja menn út í hvað þeir gera til að reyna að fá betri heildarmynd á það sem ég vil sjálfur gera. Það er hægt að fá hugmyndir allstaðar að, það þýðir þó ekki að þú þurfir að nota allar þær hugmyndir. 

Tökum mig sem dæmi, ég er körfuboltamaður. Ég vil gera hvað sem er til að verða betri körfuboltamaður. Það er margt sem getur spilaði inn í til þess að verða betri í körfubolta sem er kannski ekki beint tengt því að drippla eða skjóta boltanum. 

Þarna ræður hugmyndarflugið ríkjum. Man alltaf eftir viðtali sem ég sá við Ólaf Stefánsson þar sem hann sagði að þegar hann var 18 ára þá byrjaði hann að „cleana“. Hann sagði að í fyrstu héldu menn að hann væri eitthvað bilaður, þetta væri æfing sem tengdist handbolta ekki á neinn hátt. Núna nokkuð mörgum árum seinna er þetta vel þekkt æfing til að auka sprengikraft íþróttarmanna í nánast öllum íþróttum. (ekki í fyrsta og ekki í seinasta skipti sem ég vitna í snillinginn Óla Stef)

Hver hafði haldið t.d. að hlaupa niður brekku hjálpar þér að bæta það hversu hratt þú getur hlupið.
Til þess að verða góður íþróttarmaður þarf að hugsa út fyrir boxið, þannig nær maður forskoti á hina. Það er jú það sem maður er sífellt að eltast við, ná forskoti á hina. 

Hvort sem það er tengt mataræði, lyftingum, sprengikrafti, útsjónarsemi eða öðru tengt þinni íþrótt.
Auðvitað er ekki endalaust hægt að finna upp hjólið eins og margir eru alltaf að reyna að gera með nýjum æfingum í ræktinni til að mynda. En prufaðu að leita til sérfræðinga til að sjá hvað þeir segja. Ég get lofað þér að eitthver þeirra sérfræðinga sem þú talar við kemur með nýjar hugmyndir og staðreyndir sem þú vissir ekki áður, sem munu koma til með að hjálpa þér.

Svo lengi sem þú ert tilbúinn að hlusta, geturu bætt þig sem íþróttarmaður! Sama hversu góður þú ert nú þegar!