Mar 18, 2012

Aðsend grein frá Hauk Helga Pálssyni


 Ég fékk senda grein frá Hauk Helga Pálssyni. Get ábyrgst það að þetta er eina íslenska bloggsíðan í heiminum sem hefur fengið aðsenda grein frá leikmanni í efstu deild á Spáni!! Hérna er greinin:


Herbergisfélagi minn hér á Spáni setti status á Facebook þar sem hann sagði “Why give 100% of you if you do not notice any change?“. Af hverju að gefa 100% af sér ef þú sérð enga breytingu?
              

  Ég sagði honum að kannski sé hann í raun ekki að gefa 100% af sér, það sem hann kallar 100% hjá sér er kannski í rauninni bara 85% af því sem hann getur án þess að gera sér grein fyrir því. Og að hann þurfi að æfa harðar og taka á því þangað til hann verður aumur, þangað til hann einfaldlega getur ekki meira til þess að sjá hvar hans mörk eru. Hann sagðist ætla að prófa það næst, sem er jákvætt hugarfar og tel ég að þannig eigi að taka allri uppbyggilegri gagnrýni.
               



 Við skulum samt ekki missa okkur, þegar ég segi æfa þangað til að þú getur ekki meira eða þangað til þú ert aumur, þá er ég ekki að segja að við gerum það alltaf. Ef svo væri þá væri skrokkurinn á okkur ónýtur eftir nokkur ár. Hvíld er jafn nauðsynleg og æfing. Hérna á Spáni þá er styrktarþjálfarinn okkar með hjartsláttarmæla sem fest eru á brjóstin á okkur svo hann geti fylgst með hjartslættinum á meðan við erum að æfa. Hann vil að við séum að æfa á 85-90%, sem ég taldi að yrði ekkert mál, kannski örlítið erfiðara en vanalega. Það er ekki málið! Ég er alltaf fáranlega þreyttur þegar ég er að æfa á um það bil 85-90%. Svo þegar kemur að þolæfingum hjá honum þá á maður ekki að fara undir 90% sem er bara eitt það erfiðasta sem ég hef gert. En að sama skapi veit ég að ég get þetta, ég veit að líkaminn mun ráða við þetta og ég veit að þetta er það sem ég þarf að gera til þess að bæta mig. Þá fer hausinn að spila stóra rullu í þessu, líkaminn vill hætta en þú verður að berjast við sjálfan þig til að halda áfram! Halda áfram að segja við sjálfan þig “haltu áfram, haltu áfram“. Svo þegar æfingin er búinn þá getur þú hætt.
            
    Í Bandaríkjunum lærði ég allt um sterkt hugarfar, það var ekki liðið að þú værir að hvíla þig þó svo líkaminn væri búinn á því, þannig er þetta bara í Ameríku.
               

 Seinustu 2 ár hef ég spilað í um það bil 9 mín í leik með 2 stig og kannski 1 frákast. Eitthvað sem ég er alls ekki vanur, og hugsaði ég oft til þess sérstaklega á síðasta ári hvort ég hefði tekið rétta ákvörðun um að fara frá Íslandi til þess að spila annarsstaðar. Vera í þægilegu umhverfi, fá nægan spilatíma skora mikið kannski, taka fullt af fráköstum og fara svo bara heim eftir þessa einu liðsæfingu sem var á dag. (Að sjálfsögðu er alltaf þessir nokkrir sem vilja gera meira, æfa meira og vilja vinna að því að verða betri – sem er ekkert nema frábært). Þar sem ég spila núna eru vanalega 2-3 æfingar á dag. Lyfta, skjóta og svo æfing, svo 2-3 sinnum í viku geri ég eitthvað aukalega, fer með þjálfara og vinn að því að koma af pick og roll, koma af screenum og beint upp í skot eða eitt drippl og skot, allskonar æfingar sem maður gerði mikið heima en þetta eru þær bara þær æfingar sem maður þarf að gera aftur og aftur því þessi atriði koma mjög oft fyrir í öllum leikjum.

                


Það sem hjálpaði mér mikið um hvort ég væri að bæta mig eða ekki (því oft hélt ég að ég væri að verða slakari) var að hætta að hugsa um hvað ég gerði heima. Leikurinn er búinn að breytast, strákarnir farnir að ná mér í hæð, styrk og snerpu. Núna eru alltaf menn sem eru allavega 205 cm ef ekki hærri í teignum tilbúnir til þess að blocka þig ef þú kemst framhjá þínum manni. Annað var að finna leikmann sem ég geri er að finna leikmann sem ég get borið mig saman við. Hvað hann getur og hvað ég get. Fyrst var það að sjálfsögðu Kobe, Michael Jordan eða Lebron James. En ok það sem fyrri tveir geta gert er mjög sjaldgæft og þessvegna eru þeir tveir einu sem eru nefndir bestu leikmenn allra tíma, eða Michael Jordan er talinn vera það og Kobe er í umræðunni líka. Lebron hinsvegar er með líkama sem enginn annar vængmaður er með, sem getur hlaupið eða hoppað svona þrátt fyrir að vera svona stór. Ég get ekki borið mig saman við þá og sérstaklega ekki Lebron því líkaminn minn er bara ekki þannig. (Ég er ekki að segja að ekki nota þá sem model um hvað þú vilt verða, ég hef gert það hingað til og það hefur hjálpað mér að komast á þann stað sem ég er núna!) En það sem hjálpaði MÉR var að finna annan leikmann og sá leikmaður var Hedo Turkoglu í Orlando Magic. Hann er ekki yfirburða snöggur og hoppar ekki jafn hátt og þessir leikmenn, þó svo hann sé frekar snöggur og getur svo sem alveg hoppað líka. En hann kann leikinn mjög vel, getur postað upp, getur skotið fyrir utan og drive-að að körfunni. Annar leikmaður sem mér finnst gaman að horfa á er Manu Ginobili í San Antonio Spurs, og eru þetta leikmenn sem ég nennti aldrei að horfa á þegar ég var yngri. Þó það sé gaman að horfa á troðslur, alley-op og svaka tilþrif þá gæti það hjálpað þínum leik meira að horfa á leikmenn sem eru „mannlegir“ því það eru fáir sem geta leikið eftir það sem Kobe, Jordan og Lebron gera vanalega. Ekki veit ég um marga sem hafa þann eigileika að geta hoppað yfir annan mann gripið boltann og svo troðið honum og hef ég nú spilað á þó nokkrum stöðum þó ég sé ungur!
               
 Þegar ég gerði þessa hluti sá ég alveg að ég var að verða betri þó svo að ég væri ekki að skora jafn mikið eða taka jafn mörg fráköst. Leikmenn hafa breyst frá því sem ég var vanur. Einnig finnst mér ein grein sem ég var að lesa rétt í þessu (http://www.visir.is/ad-vera-samferda-sjalfum-ser/article/2012703179985) hjá Helgu Margréti frjálsíþróttakonu áhugaverð. Hún fjallar um það að vera samferða sjálfum sér, hætta að hugsa endalaust um framtíðina og njóta þess að gera það sem þú ert að gera núna. Ekki byrja að tala um það hvað þú ætlar að gera næst fyrr en þú ert búinn að klára það sem þú ert að gera núna. Og jújú mikið til í þessu og hefði ég eflaust verið mjög sammála þessu ef ég væri að spila í 30 mín í leik. En þar sem ég er með 9 mín í leik þá hugsaði ég meira út í þetta og spilatíminn síðustu 3 leiki hefur verið að fara niður. Þá talaði ég við General Managerinn hérna og hann spurði mig hvað ég vildi fyrir næsta tímabil, en það eru ennþá 9 leikir eftir af tímabilinu hjá mér. Ég sagði náttúrulega jú ég vildi vera stærri partur en ég er á þessu ári og ég veit að ég get meira, og var hann sammála öllu þessu. Þó svo mér finnst gott að klára þetta tímabil og hugsa út í að klára það þá finnst mér ekkert að því að hafa markmið fyrir næsta tímabil og byrja aðeins að vinna í því. Kannski á greinin hennar meira við um frjálsíþrótta fólk, en engu að síður góðir punktar þarna sem á við allt.

Haukur Helgi Pálsson