Mar 10, 2013

Árangur



Fyrir mér er árangur eitt afstæðasta hugtak sem okkar tungumál nær yfir. Árangur er eitthvað sem er virkilega persónubundið. Hugtakið árangur er líklega ekki skilgreint eins hjá neinum manni. 

Það er hægt að mæla árangur á margan hátt. Einn sá vinsælasti og sá auðveldasti í raun er að mæla árangur útfrá titlum. Það þarf ekki að fara lengra en að horfa til bestu deildar í heimi sem allir þekkja NBA deildina. Ef leikmaður þar hefur ekki unnið titil er í raun oft sagt að hann hafi ekkert gert nú þegar á sínum ferli. Þessi mæling á árangri finnst mér alfarið röng. Þótt að það spili allir til að vinna, það eru allir að spila til að vinna titla þá verður samt að líta á heildar myndina. Fyrir suma er að vinna titil ekki raunhæft markmið. Fyrir Lebron að vinna titil þegar hann var í Cleveland var til að mynda ekki raunhæft, en það þýðir samt ekki að hann hafi verið að bæta sig sem leikmaður og að liðið hafi ekki verið að ná árangri. Á tíma Lebrons í Cleveland náði liðið sínum besta árangri í sögu félagsins samt vogaði fólk sér að segja að tími hans þar hafi verið vonbrigði af því þeir unnu ekki titil.



Lítum á tímabilið í Iceland Express deildinni í fyrra. Fyrir tímabilið var Grindavík spáð titilinum og allir settu pressu á þá til að vinna, í raun bjuggust allir við að þeir myndu vinna og ef þeir myndu ekki vinna þá yrði það stórslys. Aftur á móti kemur Þór Þorlákshöfn upp um deild og eru nýliðar í úrvalsdeild, þeir enda í hörku úrslitarimmu við Grindavík en þurfa að lýta lægri hlut. Er árangur Grindavíkur þá meiri en Þórs af því þeir unnu titilinn? 



Að leggja á sig og sjá bætingu er árangur líka.Til þess að byrja að ná almennilegum árangri finnst mér persónulega stærsti sigurinn og besta leiðin að árangri er að átta sig á því við hvern maður er í raun að keppa. Því um leið og þú áttar þig á því ertu tilbúin/n til að takast á því að vinna þann sem þú keppist við.

 Íþróttarmaður í öllum íþróttum er á öllum tímum að keppa við sjálfan sig. Þú sjálf/ur ert þinn stærsti samherji en á sama tíma einnig stærsti mótherji. Ef þú keppist að því að verða betri en þú varst í gær á hverjum degi, þá hlýturu að enda sem virkilega góður leikmaður sem bætir sig stöðugt og með því að bæta þig stöðugt, ertu stöðugt að ná betri árangri. 


Til þess að sjá að þú sért að bæta þig er mikilvægt að sjá það á svart og hvítu. Til þess að skara fram úr er ekki nóg að mæta bara á æfingar og halda að þú sért að bæta þig. Þú þarft að vera viss, hvernig ertu viss? 

http://www.newsinnigeria.org/wp-content/uploads/2013/01/success.jpg


Ég hef sagt það áður á þessarri síðu og mun segja það aftur að skrifa niður það sem þú ert að gera á æfingum. Þegar þú tekur aukaæfingu, skrifaðu niður það sem þú gerir á æfingunni. Bæði skotin sem þú tekur, hverju þú hittir úr. Taktu sjálfan þig upp, að taka sjálfan sig upp hjálpar gífurlega. Það hljómar kannski skringilega, en ef þú sérð hreyfingar sem þú gerir sérðu það sem þú getur bætt. Líka með því að taka sjálfan þig upp þá sérðu progressið á sjálfum þér milli myndbanda. Þannig allt sem þú tekur upp líka, geymdu það. Því það er virkilega góð tilfinning að sjá bætinguna á sjálfum sér og fátt annað sem hvetur mig meira áfram en akkurat það. 

Þegar á botninn er hvolft er árangur það sem þú telur að sé árangur. Þinn árangur og þín bæting er undir þér einni/einum komið. Að ná árangri er alltaf jákvætt og skal alltaf verið tekið opnum örmum sama í hversu stórri eða smárri mynd hann birtist.