Jan 29, 2012

Þetta er bara leikur!


Setningin þetta er bara bara leikur, er setning sem ég hef velt fyrir mér í yfir þúsund skipti. Það eru margar ástæður hvers vegna. Auðvitað skilur maður setninguna upp að vissu marki. Oft er þetta sagt til að reyna að róa taugar einstaklinga sem eiga erfitt með að hemja sig eða að sína sitt „rétta andlit“ á taugaveikluðum augnablikum leiks. 


Þessi frasi er líka oft notaður á börn svo þau læri að njóta leiksins sem þau spila sem er algjörlega nauðsynlegt svo þau haldist í íþróttinni. Þau læra þannig að meta leikinn út á sínum réttum forsendum ekki bara á sigrum og töpum.
En ef íþróttir er bara leikur, hvað er þá ekki leikur?

Þessi er líklega sammála um að þetta sé ekki bara leikur.
Líf mitt hefur síðan ég var 8 ára nánast engöngu snúist um körfubolta. Í unglingadeildinni í grunnskóla fífluðust félagar mínir oft með það að besti vinur minn væri „spalding“ körfuboltategund. Því ég var alltaf með körfubolta í hendinni sama hvar ég var. Mér var alveg sama því þetta var það sem ég vildi gera, það sem ég ætlaði mér að gera og það sem ég stefndi að, að verða körfuboltamaður.  Þarna lærði ég sjálfsaga, ég þurfti ekki böll, hanga út í sjoppu, nammi alla daga eða neitt því um líkt. Ég hafði mín markmið eitthvað sem ég virkilega vildi gera, sóttist eftir því og vildi gera hvað sem þyrfti til að það tækist. 

Ég man fyrstu landsliðsúrtaksæfingar sem ég var boðaður á að á seinustu æfingunni þá úrtakshelgi sagði Benni þjálfari við okkur að hann vildi sjá mikla bætingu næstu æfingarhelgi annars myndum við ekki komast inn í hans hóp. Ég hef alltaf munað þessa ræðu Benna og hversu skelkaður ég var að komast kannski ekki í hópinn ef ég myndi ekki bæta mig á þessarri viku sem hann gaf okkur.  Á þessarri viku fór ég út á hverjum einasta degi í 3-4 tíma einn til að drippla og kasta bolta í vegg.  Þarna lærði ég frumkvæði.

Þegar ég varð aðeins eldri fór ég að æfa mig mun markvissarra. Ég las mig til um markmiðasetningu. Lærði að setja mér almennileg markmið og það sem merkilegra er að ég lærði að eltast við mín markmið og ná þeim.

Ég fór ungur að heiman til að geta spilað körfubolta. Þar lærði ég á reynsluríkan hátt hversu erfitt það er að standa á eigin fótum. En ég þurfti að gera það ef ég ætlaði að ná mínu markmiði að vera körfuboltamaður þannig eftir dágóða stund hafði ég lært að kaupa inn, elda, setja í þvottavél, þrífa, spara. Breyttist úr því að vera svakalegur mömmustrákur í sjálfstæðan einstakling.

Til þess að vera góður í hópíþróttum er margt mikilvægt. Þú þarft að geta mætt á réttum tíma til þess að liðsfélagar þínir viti að þú takir þetta alvarlega og þú berð virðingu fyrir þeirra tíma með því að mæta á réttum tíma. Ef allt liðið er að stefna að settu marki er ekkert meira óþolandi heldur en einstaklingurinn sem mætir alltaf á slaginu eða aðeins seinna. Þetta kallar á  stundvísi.

Hvað þá þessi!
Til þess að vegna vel í hópíþrótt þarftu að geta lært inná hvern einasta einstakling til að geta bæði skilið það sem hann er að hugsa og til að geta haft góð samskipti ykkar á milli. Þarna munu samskipta hæfileikar ykkar bætast til muna sem og hópvinna sem þarf nú varla að taka fram.

Þarna erum við komin með einstakling sem  er metnaðarfullur, sjálfstæður, sínir frumkvæði, stundvís, með góða framtíðarsýn, á auðvelt með að hafa samskipti og vinna með öðrum. Það væri auðvelt að gera listann lengri, hver væri ekki til í að hafa starfsmann sem byggi yfir öllum þessum kostum? Í hverju öðru en íþróttum geta ungir krakkar lært hluti sem þessa? 
Að segja að íþróttir sé bara leikur er í raun vanvirðing við alla vinnuna sem íþróttamenn leggja á sig til að ná árangri. Íþróttir er í raun einn hollasti og jákvæðasti lífstíll sem hægt er að lifa.