Jan 26, 2012

Það eru 90% líkur á að þú fallir.



Ég hef verið að lesa mikið af greinum uppá síðkastið um að hitt og þetta virkar ekki, af því það eru einhverjar x margar líkur á að þú náir ekki þínum markmiðum ef þú fylgir þessarri áætlun. Í fljótu bragði man ég eftir grein sem ég las á Pressunni þeim ágæta miðli um að nikótín tyggjó virkaði alls ekki því af þeim sem nota það eru 90% fólks sem byrjar aftur að reykja. Þar set ég stórt spurningarmerki af því það eru 10% aðila sem nota tyggjóið til að hjálpa sér að hætta að reykja. Hjálpar tyggjóið þá ekki?  


Með svona könnunum er oft verið að reyna að setja eitthvað upp í líkur. En í rauninni er aldrei hægt að mæla viljastyrk hverra og einnar manneskju til að hætta að reykja t.d. Ég las líka mjög skemmtilega umræðu sem kom upp í kjölfarið á því að leikmaður úr Grindavík var ekki hleypt út til Noregs til reynslu í fótbolta. Þar kom upp sú umræða að 90% þeirra leikmanna sem fara út til reynslu koma aftur heim og fengu ekkert út úr krafsinu að fara út því þeir fengu ekki samning. Þessu gæti ég ekki verið meira ósammála. Hver segir að þessi tiltekni leikmaður þurfi að vera einn af þessu 90% sem fá ekki samning? Hvernig vitum við viljastyrk hans og hversu vel hann myndi spjara sig á þessarri viku eða hvað það er gefið á svona reynslutímum. 


Tökum upp að versta dæmið hafi átt sér stað. Hann hafi farið út gengið illa, komið heim og haldið áfram að æfa hér heima. En þá er hann allavega reynslunni ríkari. Hann sér á svart og hvítu hvað hann þurfi að gera til þess að komast á þann stall sem hann vill vera á, hann myndi þá allavega fá það á hreint hvort hann sé tilbúinn eða ekki. Ef hann fær ekki að fara þá mun hann lifa í endalausri óvissu um hvort hann sé nógu góður eða ekki. Þannig ef hann er ekki nógu góður og er eins metnaðarfullur og ég hef heyrt þá myndi hann leggja meira á sig til að geta orðið betri í sinni íþrótt sem kemur Grindavík til góðs í þessu tilviki. Þar sem hann mun ýta við sjálfum sér og verða betri leikmaður fyrir vikið, einnig mun hann ýta við öðrum leikmönnum liðsins þegar þeir sjá hversu mikið hann leggur á sig þrátt fyrir að vera einn af máttarstólpum liðsins. (er nú samt engan veginn að taka afstöðu til þess hvort að þeir hefðu átt að hleypa honum eða ekki.)


Hugarfar eins og þetta að segja að það séu 90% líkur á að eitthvað mistakist að það eigi þá bara að mistakast er alfarið rangt. Það sem ég sé með þessu er að það sé enn stór möguleiki á að hlutirnir takist því þegar allt kemur til alls er 10% ansi stór prósenta ef þú ert einn af þeim sem gerir allt til að hlutirnir rætast. Það er aldrei hægt að segja þér eitthvað sem þú getir ekki gert. Eini sem getur sagt þér það í raun og veru er þú sjálfur.