Nov 28, 2012

Larry Bird




Sterkasta vopn íþróttarmanna er sjálfstraust.

 Íþróttarmaður án sjálfstrausts er eins og hermaður á leiðinni í stríð allsber með ekkert vopn, Er eins og bíll án vélar, eins og kvikmynd án leikstjóra, og svo framvegis. 

Þetta er fyrirbæri sem ég hef lagt hvað mesta rannsóknarvinnu á. Ef ég hef áhuga á einhverju þá sekk ég mér í það. Ég hætti ekki fyrr en ég hef fengið eins miklar upplýsingar og ég get borið. En það er eitthvað öðruvísi þegar ég rannsaka orðið sjálfstraust og hvað felst í því. Það er nefnilega alltaf hægt að finna eitthvað nýtt sem tengist sjálfstrausti, eitthverjar nýjar tilvitnanir, nýjar rannsóknir og svo framvegis. 

Það hafa allir skoðun á sjálfstrausti, því jú það snertir allar mannverur jarðar.

Ég hef ætlað að skrifa pistil um sjálfstraust síðan ég byrjaði fyrst með síðuna, en aldrei fundist ég vita nóg. Sjálfstraust er svo vítt hugtak að það er virkilega erfitt að komast yfir það í einum pistli.
Að stúdera sjálfstraust hefur hjálpað mér mikið. Ég hef gert ýmislegt til þess að bæta sjálfstraustið mitt og svo viðhalda því á hæsta stigi. 

Sá maður sem ég tek mér helst til fyrirmyndar þegar kemur að sjálfstrausti er goðsögnin Larry Bird. Sem íþróttarmaður hafði hann óbilaða trú á sjálfum sér, því meira sem ég kynni mér hann og les um hann því meira heillar hann mig sem íþróttarmaður. 

Þegar hann klikkaði skoti, þá fagnaði hann því! Því hann vissi að hann væri 50% skytta og víst hann klikkaði þessu skoti, þá vissi hann að hann myndi hitta næsta skoti. 



Hann vissi að hann væri ekki sneggsti leikmaðurinn, ekki sá stærsti og ekki sá sem hoppaði hæst en hann vissi og lagði mikla áherslu á að enginn væri sterkari en hann andlega, hann lagði einnig mikla áherslu á að engin legði meira á sig en hann. 

Hann setti sér eina góða reglu sem ég hef tileinkað mér síðan ég las það fyrst, hann hætti ekki að taka auka skot eða æfa eftir æfingar þangað til allir aðrir voru hættir, þar var hann kominn með ákveðið andlegt forskot á liðsfélaga sína fyrir sjálfa sig. Ef hann er seinastur út úr salnum þá getur hann réttlætt fyrir sjálfum sér að hann hafi lagt mest á sig af öllum á viðkomandi æfingu. 

Andlegur styrkur íþróttarmanns er virkilega vanmetinn. Það er talið að 70% getu leikmanns er komið útfrá andlegum styrk og hversu mikið hann trúir á sjálfan sig. Það skilur eftir að 30% sé komið af líkamlegum burðum og hæfileikum. 

Þegar þetta er sagt þá langar mig til að spyrja þig hvað er hlutfallið þitt á því hversu mikið þú æfir andlegan styrk á móti líkamlegum styrk/þinni íþrótt líkamlega?